Meðaltalslíkur á hjartaáföllum jukust um 24% árið 1987, sem var í raun skattlaust ár hér á landi, meðal karlmanna á aldrinum 45 - 64 ára.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn fræðimanna við Háskóla Íslands sem birtist nýverið í virtasta vísindatímariti heims á sviði heilsuhagfræði, Journal of Health Economics.

Náttúruleg tilraun

Var markmið rannsóknarinnar að kanna hvort aðstæður í efnahagslífi hefðu áhrif á líkur á hjartaáföllum og hvort skýringa væri að leita í tímabundinni aukningu á vinnuframboði.

Þegar skipt var úr eftirágreiddum skatti í staðgreiðsluskattkerfi hér á landi var í raun enginn tekjuskattur af vinnu ársins 1987. Þannig myndaðist í raun skattlaust ár, sem líta má á sem náttúrulega hagfræðitilraun í rannsóknum. Jókst vinnuframboð á skattlausa árinu og vegna mikillar eftirspurnar var næga vinnu að fá fyrir þá sem vildu vinna mikið.

Juku við sig vinnu

Hafa fyrri rannsóknarniðurstöður verið misvísandi varðandi tengsl hjartaheilsu og hagsveiflna. Báru fræðimennirnir saman skattskrár og skrá yfir hjartaáföll á Íslandi á aldrinum 45-74 ára á tímabilinu 1982 - 1992. Kom í ljós að 24% aukning var á meðaltalslíkum á hjartaáföllum yfir rannsóknartímabilið árið 1987 hjá karlmönnum á aldrinum 45 - 64 ára þó sínu meiri meðal þeirra sem voru 45 - 54 ára.

Var aukningin fyrir árið 1988 15,6% en niðurstöðurnar gefa til kynna að að skýringanna sé að leita í skammtíma aukningu vinnuframboðs meðal þeirra sem voru sjálfstætt starfandi. Þeir juku meira við sig vinnu en aðrir hópar, en viðlíka tengsl fundust ekki hjá konum.

Var rannsóknin hluti af doktorsrannsókn Þórhildar Ólafsdóttur, doktorsnema við Hagfræðideild en samhöfundar hennar að greininni voru Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild, Birgir Hrafnkelsson, prófessor við Raunvísindadeild og Guðmundur Þorgeirsson, prófessor við Læknadeild.