Neytendur hér á landi eru bjartsýnni á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum en á seinni helmingi síðasta árs, miðað við Væntingavísitölu Gallup. Greining Íslandsbanka fjallar um væntingavísitöluna fyrir marsmánuð sem birtar voru í morgun. Vísitalan hækkaði um níu stig á milli mánaða í mars og mælist hún nú 94,8 stig. Þetta er hæsta gildi vísitölunnar síðan í júní í fyrra.

Greining Íslandsbanka segir vísitöluna talsvert litaða af niðurstöðu alþingiskosninga enda virðist Íslendingar almennt fyllast af bjartsýni þegar ný ríkistjórn tekur við völdum.

Samhliða væntingavísitölunni birti Capacent Gallup niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda. Þar kemur fram að fleiri eru líklegri til að ráðast í stórkaup. Vísitala stórkaupa mælist nú 87,8 stig og hefur hún ekki verið hærri síðan í september árið 2008. Vísitalan fyrir bifreiðakaup hækkar um tæp 7 stig frá síðustu mælingu, og mælist hún nú 25,2 stig sem er hæsta gildi hennar í 6 ár. Töldu rúmlega 13% aðspurða það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu festa kaup á bifreið á næstu 6 mánuðum, en tæplega 76% mjög eða frekar ólíklegt. Þessi vístalan hefur lægst farið niður í 10,5 stig, sem var í árslok 2008, en frá upphafi mælinga hefur hún að jafnaði mælst 24,2 stig.

Greining Íslandsbanka segir:

„Svipaða sögu má segja um þá þróun sem varð á vísitölunni sem metur líkur á því að einstaklingur ráðist í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum. Sú vísitala mælist nú 8,9 stig sem er einnig hæsta gildi hennar í 6 ár. Töldu nú um 6% aðspurða það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu ráðast í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum en tæplega 89% það ólíklegt. Þessi vístalan hefur lægst farið niður í 3,2 stig, sem var í árslok 2011, en frá upphafi mælinga hefur hún að meðaltali mælst 9,7 stig.“