Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures, segir fyrirtækið fá mörg hundruð fyrirspurnir á dag frá tilvonandi viðskiptavinum. Hann furðar sig á skorti á úrræðum fyrir ferðaþjónustuna í nýjustu aðgerðum yfirvalda, sem kynntar voru í gær. Þetta segir hann í facebook-færslu nú í morgun.

„Ekki var minnst svo mikið sem einu orði á stærstu atvinnugrein landsins,“ segir Styrmir um aðgerðirnar. Ferðaþjónustan hafi verið „fyrst inn í óvissuna og [verði] síðust út.“

Hann segir alveg ljóst í sínum huga að áhugi á ferðalögum til Íslands sé og verði áfram til staðar; Ísland eigi mikið inni sem áfangastaður ferðamanna.

Arctic Adventures hafi á síðasta ári sinnt yfir hálfri milljón ferðamanna, og yfir 100 þúsund hafi heimsótt heimasíðu fyrirtækisins það sem af er þessum mánuði, auk þess að fá hundruð fyrirspurna daglega sem fyrr segir.

„Þetta bendir óneitanlega til þess að það sé í raun ljós við enda ganganna, en ljósið eitt og sér er ekki nóg, þangað þarf að komast. Allt tal um uppbyggingu Íslensks efnahagslífs án þess að tryggja blómlega ferðaþjónustu þegar að covid krísunni líkur, er á mannamáli, tóm tjara,“ segir hann í kjölfarið, og kallar eftir því fyrir hönd ferðaþjónustunnar að stjórnvöld „átti sig á því hvað er í húfi fyrir heimilin í landinu, það eru jú þau sem hagnast mest þegar vel árar.“