Vegna gengisþróunar síðustu mánaða er óhagstæðara að prenta íslenskar bækur utan landsteinanna nú en áður.

Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins en þar er sagt frá því að í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi kom fram að á síðasta ári hafi metfjöldi íslenskra bókatitla verið prentaður í útlöndum, eða 57%. Fleiri bækur verða prentaðar hér á landi í ár vegna stöðu krónunnar.

Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóri Odda sagði að gengismunur ætti stærstan þátt í samningi sem Forlagið og Oddi hafa gert.

Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins sagði að Oddi myndi prenta 100 titla en ákveðinn fjöldi bóka sé alltaf prentaður í útlöndum.

Árið 2000 voru 67% bókatitla prentaðir hérlendis en einungis 43% á síðasta ári. Jón vonast til að sjá hlutfall bóka sem prentaðar eru hér á landi fara yfir 50%. Hlutfallið mun hækka eitthvað á þessu ári þar sem stærstur hluti bóka Forlagsins verður prentaður hérlendis, að minnsta kosti til áramóta.