Töluvert fleiri karlar en konur hafa verið í tíu eða fleiri stjórnum á starfsferli sínum eða 33% karla samanborið við 15% kvenna, samkvæmt því sem fram kemur í niðurstöðum könnunar KPMG og Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands .

Stjórnarmenn voru spurðir hvað þeir hafa verið í mörgum stjórnum á starfsferli sínum og eru núverandi stjórnir meðtaldar (félagasamtök og góðgerðarfélög ekki meðtalin). Núverandi stjórnarseta er meðtalin og kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að 20% kvenkyns stjórnarmanna og 10% karlkyns stjórnarmanna séu í sinni fyrstu stjórn þegar könnuninni var svarað.

Fimmtugir karlar í 10 eða fleiri stjórnum

Stærsti hópur stjórnarmanna sem er 50 ára eða yngri (38%) hefur verið í 1-3 stjórnum á starfsferli sínum. Karlar í þessum aldursflokki hafa í flestum tilvikum (33%) verið í 4-6 stjórnum á starfsferli sínum á meðan flestar konur á þessum aldri (48%) hafa verið í 1-3 stjórnum. Stjórnarmenn eldri en 50 ára hafa í flestum tilvikum (34%) verið í 1-3 stjórnum á starfsferli sínum. Karlar í þessum aldursflokki hafa í flestum tilvikum (36%) verið í 10 eða fleiri stjórnum á starferli sínum á meðan flestar konur á þessum aldri (50%) hafa verið í 1-3 stjórnum.

Fram kemur í könnuninni að meginmarkmið hennar sé að kanna starfshætti, verkefni og starfsumhverfi stjórna sem og samskipti, reynslu og menntun stjórnarmanna. Ennfremur er markmiðið að kortleggja viðhorf til laga um 40% lágmarkshlutfall hvors kyns í stjórnum sem tóku gildi 1. september 2013.

Könnun var gerð á þann veg að send var beiðni um þátttöku til 205 félaga og 27 lífeyrissjóða. Alls fengu 905 stjórnarmenn þátttökubeiðni og 339 stjórnarmenn tóku þátt í könnuninni. Svarhlutfallið var því 37%. Kynjahlutfall þátttakenda var 41% konur og 59% karlar.