Karlmenn á Vesturlöndum eru að missa vinnuna í helmingi meira magni en konur sem er þvert á við allar kenningar um að konur komi iðulega verr út úr kreppum.

Þetta kemur fram í helgarumfjöllun breska blaðsins Financial Times í tilefni kvenréttindadagsins sem haldinn er víða um heim í dag.

Í umfjöllun sinni vitnar blaðið í tölur frá bresku hagstofunni (ONS) þar sem ljós kemur að samdráttur í efnahagskerfinu kemur síður niður á störfum kvenna en karla.

Nokkuð hefur verið um það deilt á Bretlandi hvort kynið sé að koma verr út úr efnahagskrísunni, karlar eða konur. Þannig hefur Harriet Harman, jafnréttismálaráðherra Bretlands ítrekað að hugað verði að konum vegna efnahagsástandsins og undirbýr nú sérstakt aðgerðarplan til að koma til móts við þær konur sem misst hafa vinnuna vegna samdráttar fyrirtækja.

Harman fullyrti í breska þinginu fyrr í vikunni að konur kæmu mun verr út úr efnahagsástandinu og sagði að þrátt fyrir áhyggjur karlmanna af vinnu sinni væru konur enn áhyggjufyllri „enda störf þeirra flestra í hætti,“ eins og hún orðaði það í ræðu sinni.

Þá hafa ýmiss kvenréttindafélög og hagsmunasamtök ítrekað síðustu vikur að grípa þyrfti til sértaka aðgerða til að koma í veg fyrir hópuppsagnir kvenna.

Financial Times segir tölur ONS þar í landi þó sýna fram á annað. Þannig er uppsagnartíðni kvenna 6,6 á hverja 1.000 starfsmenn fyrirtækja frá því í byrjun desember s.l. en uppsagnartíðni karlmanna rúmlega helmingi hærri, eða 13,6 á hverja 1.000 karlmenn.

Þá segir blaðið að fjöldi atvinnulausra kvenna hafi vaxið hægar á síðustu þremur mánuðum fram að desember eða um 0,3% á meðan atvinnuleysi karlmanna jókst um 0,6% á sama tíma.

„Efnahagssamdrátturinn árið 2008 hefur haft minni áhrif á atvinnu kvenna en karla,“ segir í nýlegri skýrslu ONS.

The Chartered Institute of Personnel and Development hugveitan segir tölur ONG sýna að stjórnmálamenn ættu að fara varlega í að láta undan kröfum sérhagsmunahópa.

„Við höfum alltaf efast um að konur á vinnumarkaði kæmu verr út úr kreppum en karlar,“ hefur FT eftir John Philpott, yfirhagfræðing hugveitunnar.

„Eftir því sem kreppan ílengist eru stjórnmálamenn og fjölmiðlar viðkvæmari fyrir áherslum sérhagsmunahópa sem krefjast þess kröfum ákveðinna hópa verði mætt í frekara magni. Hingað til hafa hagsmunahópar sem tengjast konum annars vegar og eldri borgurum hins vegar verið hvað mesta áberandi í umræðunni. Kaldhæðnin í því er þó að þeir sem koma verst út úr þessari kreppu eru karlmenn og yngra fólk,“ segir Philpott.