Þó að tekjur Marel á þriðja ársfjórðungi hafi aðeins verið um 1% meiri en á sama tíma í fyrra var hagnaður fyrirtækisins um helmingi meiri. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sagði í tilefni uppgjörsins að ársfjórðungurinn hefði verið frábær. „Við höfum endurskoðað vöruframboð okkar og straumlínulagað framleiðsluna. Það hefur leitt til sveigjanlegri og hagkvæmari rekstrar sem hefur skilað þessum niðurstöðum,“ sagði hann. Fjárfestar virðast einnig hafa verið sáttir við gengi félagsins, en gengi bréfa Marel hækkaði um 25% frá byrjun þriðja ársfjórð­ ungs þangað til ársfjórðungsuppgjörið var kynnt.

Tókst að minnka kostnaðargrunn

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir markaðinn hafa verið hliðhollan félaginu síðasta árið. Hann bendir á að í fyrra hafi Marel losað sig við tilteknar kostnaðarsamar rekstrareiningar sem voru óarðbærar. „Það er náttúrulega hluti af því sem félagið er búið að ganga í gegnum síðan Árni tók við sem forstjóri, að strauml­ ínulaga fyrirtækið, þannig að það er orðið sveigjanlegra. Að minnka kostnaðargrunn var markmið númer eitt, tvö og þrjú hjá honum. Það virðist hafa tekist,“ segir hann. Marel er búið að vaxa mjög hratt undanfarið, en Sveinn segist telja að sá hraði vöxtur sé búinn í bili. Búast megi við eðlilegum 4-8 prósenta vexti næstu misserin. Allt líti ágætlega út hjá félaginu, en ekki megi gleyma því að bransinn sé sveiflukenndur.

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .