Sala á byssum hefur aukist nokkuð í Bandaríkjunum eftir fjöldamorðin í grunnskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Ástæðan fyrir auknum vopnakaupunum eru áhyggjur manna af því að ríkisstjórn Baracks Obama ætli að herða byssulöggjöfina vestanhafs í kjölfar morðanna.

Reuters-fréttastofan segir vopnasöluna hafa í raun aukist jafnt og þétt um allt land frá því Obama tryggði sér áfram forsetastólinn í síðasta mánuði. Mesti vöxturinn nú í vikunni í ríkjum á borð við Coloradó, Ohio og í Oregon vakti hins vegar sérstaklega eftirtekt.

Á sama tíma og fleiri kaupa byssur vestanhafs hefur gengið hlutabréfa byssuframleiðenda lækkað mikið á mörkuðum. Þannig hefur gengi bréfa Smith & Wesson, eins þekktasta skotvopnaframleiðanda í heimi, fallið um rúm 9% síðan á föstudag í síðustu viku.