Velta í dagvöruverslunum jókst um 2,5% á föstu verðlagi á milli ára í maí, samkvæmt upplýsingum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Greining Íslandsbanka bendir á að sala á rúmum og áfengi jókst hins vegar langtum meira. Velta með rúm jókst um 18% á milli ára og áfengi um 7,8% á föstu verðlagi. Deildin telur aukninguna á áfengissölunni skýrast af fjölda frídaga í maí. Engar skýringar eru hins vegar að finna á aukinni veltu með rúm.

Greiningardeildin segir að þótt bati sé í flestum flokkum í verslun eftir hrun gegni öðru máli um fataverslun. Velta með föt dróst saman um 5% á föstu verðlagi frá í maí í fyrra. Það bætist við 13% samdrátt á milli ára í apríl. Deildin segir skýringa að finna að einhverju leyti í því að fataverslun hefur færst að mestu leyti út fyrir landsteina eftir hrun ásamt betri nýtingu á fötum. Þá kaupa færri en áður dýra merkjavöru.