Haustið 2012 fór hlutfall starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins sem ekki höfðu kennsluréttindi lægst en þá var það 4,1%.

Síðan þá hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru þeir 5,4% allra sem störfuðu við kennslu. Voru þá 261 starfsmaður við kennslu án kennararéttinda og hafði þeim þá fjölgað úr 216 haustið 2014.

Var mun hærra á árunum fyrir hrun

Á árunum fyrir hrun, eða á milli 1998-2008 var hlutfallið hins vegar mun hærra eða á bilinu 13-20%.

Í Reykjavík var hlutfall kennara án kennsluréttinda lægst, eða 2,4% kennara og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur var það 3,9%.Á Vesturlandi og Norðurlandi vestra lækkaði hlutfallið milli ára en það hélst hins vegar óbreytt á Austurlandi.

Hins vegar er það enn hærra en 10 af hundraði á tveimur landsvæðum, það er á Vestfjörðum þar sem það er 16,9% og á Suðurnesjum þar sem það er 14,5%.