Í fyrsta skipti í sögunni búa nú fleiri Kínverjar í borg en í sveit og smáþorpi úti á landi. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Kína. Gríðarlegur uppgangur og hraður vöxtur hagkerfisins hefur laðað að fólk frá dreifbýli til borga og bæja.

Kínverjar eru liðlega 1.300 milljónir. Nú er svo komið að tæplega 691 milljón, 51,3 prósent, býr í borgum og stærri bæjum.

Hagvöxtur í Kína minnkaði eilítið á fjórða ársfjórðungi frá því sem fólk er vant þar í landi. Hann var þó um 8,9%, sem er hagvöxtur sem flestar vestrænar þjóðir myndu glaðar sætta sig við.