Frumkvöðlakeppnin Gulleggið, sem haldin er á vegum Icelandic Startups (sem áður hét Klak Innovit), lagði sérstaka áherslu á þátttöku kvenna í ár. Þá fjölgaði þáttöku kvenna úr 30% í 43% milli ára, eða um 13 prósentustig.

Frá því að keppnin hófst hafa borist í hana rúmlega 2.200 hugmyndir. Síðasta laugardag var opnunarhátíð keppninnar haldin, en rúmlega 400 einstaklingar eru að þessu sinni skráðir til þáttöku - með um 200 nýjar viðskiptahugmyndir.

„Við vildum skapa umfjöllun og umræðu um þessar niðurstöður og leggja okkar af mörkum til að jafna þetta hlutfall. Því var skipulagt sérstakt málþing í byrjun árs sem bar yfirskriftina “Engar hindranir” þar sem markmiðið var að hvetja konur til þátttöku í Gullegginu og frumkvöðlastarfi almennt,” segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

„Við fundum fyrir miklum meðbyr við skipulagninguna og ljóst að umræðan er bæði þörf og velkomin. Það er því afar ánægjulegt að sjá hlutfall kvenumsækjenda aukast úr 30% í 43% á milli ára”