Stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum og stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum lýsa yfir vonbrigðum með ákvörðun formanns og þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að skipta um þingflokksformann.

Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnirnar hafa sent fjölmiðlum en eins og vb.is greindi frá í morgun var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sett af sem þingflokksformaður flokksins að tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins. Illugi Gunnarsson var kjörinn formaður þingflokksins í hennar stað.

„Ljóst er að með þessum breytingum er forystusveitin öll skipuð aðilum af höfuðborgasvæðinu og það þrátt fyrir að eitt sterkasta vígi flokksins sé Suðurkjördæmið,“ segir í fyrrnefndri ályktun en Ragnheiður Elín er sem kunnugt er oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, sem jafnframt er eitt sterkasta vígi flokksins skv. könnunum.

„Ragnheiður Elín hefur verið ötull baráttumaður fyrir fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu til sjávar og sveita og staðið vaktina sem þingflokksformaður með stakri prýði. Það er því mikill missir af svo öflugum talsmanni úr forystusveit flokksins. Stjórnirnar skora á þingflokkinn að endurskoða þessa ákvörðun,“ segir í ályktuninni.

Þá hefur kjördæmisfélag ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi jafnframt sent frá sér ályktun þar sem ákvörðun Bjarna er mótmælt harðlega. Að ályktuninni standa félög ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði, Vestmannaeyjum, Reykjanesbæ, Árnessýslu, Grindavík, Rangárvallasýslu, Hornafirði, Garði, Sandgerði og Vogum.

„Ungir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi harma þá ótrúlegu ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að skipta um þingflokksformann flokksins,“ segir í ályktun ungra sjálfstæðismanna í kjördæminu.

„Það vekur furðu að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið á þessum tímapunkti að gera breytingar á þingflokksformanni, sérstaklega í ljósi þess að Suðurkjördæmið er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins nú um stundir. Félög ungra sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi skora á þingflokkinn að endurskoða þessa ákvörðun með hliðsjón af því að nú þegar eru bæði formaður og varaformaður flokksins úr kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu.“

Fyrr í dag hafði stjórn fulltrúaráðsins í Reykjanesbæ sent frá sér ályktun þar sem ákvörðun Bjarna um að skipta um þingflokksformann var mótmælt.