Hagnaður samfélagsmiðilsins Facebook nam 219 milljónum dala, jafnvirði rúma 25 milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er tæplega 30% samdráttur frá sama tíma í fyrra og undir væntingum markaðsaðila. Tekjur námu 1,46 milljörðum dala á tímabilinu og var það 38% meira en í fyrra. Engu að síður er það 2 prósentustigum minni tekjuaukning en búist var við.

Í umfjöllun um afkomutölu Facebook segir á vef bandaríska dagblaðsins The Washington Post, að stjórnendur fyrirtækisins hafi þrátt fyrir þetta spáð því að hagnaðurinn myndi dragast saman þar sem rekstrarkostnaður hafi aukist. Kostnaðurinn jókst um 60% á milli ára, að sögn blaðsins.

Stór hluti mannkyns er skráður á Facebook en notendur eru 1,11 milljarðar talsins og er það 23% fleiri en á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Þeim fjölgaði verulega á fjórðungnum sem nota Facebook í símum og öðrum þráðlausum tækjum sem geta tengst netinu. Þeir eru nú 751 milljón talsins og var það 54% fleiri en á þriðja ársfjórðungi í fyrra.