Á árinu 2011 voru birtar 4.730 atvinnuauglýsingar, sem er 13,5% aukning frá árinu 2010. Til samanburðar voru atvinnuauglýsingar 5.490 árið 2006 og rétt um 9.000 árin 2007 og 2008.

Í heildina stækkuðu atvinnublöðin (dálksentimetrar) um 22% milli ára og meðalstærð auglýsinga jókst um tæp 8%, sem er áhugavert í ljósi þess að verð per dálksentimeter hækkaði á árinu, samkvæmt grein sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Senda skilaboð á markaðinn

„Mögulega má draga þá ályktun af stærri og fleiri auglýsingum að auglýsendur séu tilbúnari en áður að verja fé í öflun umsækjenda til að vekja áhuga á sjálfum sér eða til að senda skilaboð út á markaðinn. Það bendir aftur til þess að enn sé umframeftirspurn í tiltekin störf og að misvel gangi að manna allar þær stöður sem í boði eru," skrifar Gunnar Haugen framkvæmdastjóri Capacent Ráðninga í grein í Viðskiptablaðinu.

„Einna helst hefur borið á þessu þegar leitað er eftir langskólagengnum einstaklingum eða öðrum með mikla reynslu á tiltölulega afmörkuðu þekkingarsviði. Slík störf eru mjög sérhæfð og þorri þeirra sem eru án atvinnu í dag eru sjaldan gjaldgengir í störfin," skrifar Gunnar.

Greinina í heild má sjá hér á vb.is .