Minna var keypt af fötum á hefðbundnum sumarútsölum í júlí síðastliðnum heldur en í fyrra. Fataverslun dróst saman um 10,9% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 10,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta fataverslunar í júlí saman um 12,1% frá sama mánuði árið áður. Verð á fötum var 0,3% hærra en í sama mánuði fyrir ári af því er fram kemur á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar. Samdráttur hefur verið í fataverslun síðastliðin ár. Fatakaupmenn segja neytendur kaupa frekar ódýrari merki en þekkt vörumerki.

Þá jókst velta skóverslunar um 2,6% í júlí á föstu verðlagi og um 3,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 1,1% frá júlí í fyrra.