Fleiri snekkjur og minni lúxusskip hafa haft viðkomu á Íslandi í sumar en undanfarin ár að sögn Björns Einarssonar, framkvæmdastjóra TVG-Zimsen, sem ásamt dótturfyrirtækinu Gáru, þjónustar flest skipin hér á landi. Á annan tug snekkja hefur haft viðkomu í Reykjavík í sumar sem er talsvert meira en áður. Björn segir að auka þurfi gæðin í ferðamennsku til að sinna þessum hópi ferðamanna sem eru yfirleitt mjög efnaðir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá TVG-Zimsen og Gáru.

Segir Björn einnig að þetta mætti rekja til aukins áhuga á Íslandi og Norðurslóðum. Finnur hann fyrir því að hjá erlendum skipaútgerðum að Íslandi hafi mjög mikið aðdráttarafl. Að það séu glæsilegar snekkjur sem heimsæki landið og að þeim hafi fjölgað talsvert í ár. Hann telur þetta spennandi.

,,Með snekkjunum og minni lúxus skemmtiferðaskipunum kemur oft mjög efnað fólk sem er í flestum tilvikum að leggja áherslu á dýpri innlifun á landinu, náttúrunni og Norðurslóðum heldur en t.d. farþegar á stóru skemmtiferðaskipunum sem eru eins og fljótandi hótel. Tækifærin felast að okkar mati í aukinni og bættri þjónustu og fjölbreyttari afþreyingu fyrir þetta fólk því það dvelur oft lengur hér á landi heldur en farþegar skemmtiferðaskipa sem eru að stoppa að meðaltali 8-10 klukkustundir í landi. Við sjáum möguleikana m.a. í sjótengdri ferðamennsku. Það þarf aukin gæði til að sinna þessum hópi ferðamanna. TVG-Zimsen hefur mikinn metnað og áhuga að þróa þennan hluta ferðamennsku áfram. Með gæðalausnum mun þetta auka gæðin í ferðaþjónustu á Íslandi,” segir Björn enn fremur.

Glæsisnekkjur á Íslandi

Meðal annars þá vakti snekkja rússneska auðkýfingsins Andey Meknichenki mikla athygli í Reykjavík og á Akureyri í sumar. Einnig kom lúxussnekkjan Cloudbreak til Reykjavíkur í sumar, er snekkjan búin þyrlupalli, heilsulund og líkamsræktarstöð. Einnig hefur glæsisnekkja í eigu Paul Allen, eins af stofnenda Microsoft verið tíður gestur við hafnir Íslands.

Þá hafa tvö lúxus skemmtiferðaskip L’Austral og Le Boreal siglt hringinn í kringum Ísland í sumar. Hvort skip fyrir sig hefur farið fimm ferðir í kringum landið og haft viðkomu í fimm höfnum. Í hvoru skipi fyrir sig eru 132 svítur og farþegafjöldi um 250 manns. Franska fyrirtækið Ponant gerir skipin út en það selur upplifun á sjó í hæsta mögulega gæðaflokki. Ferðir með skipunum eru í dýrari kantinum enda eru skipin hin glæsilegustu. TVG-Zimsen og Gára þjónusta þessi frönsku lúxusskip þar sem þau hafa viðkomu í höfnum landsins.