Óveðursskýin hrannast nú yfir Spáni, en tvær héraðsstjórnir hafa beðið ríkisstjórn Spánar um fjárhagsaðstoð, ávöxtunarkrafa á spænsk ríkisskuldabréf er komin upp í hæstu hæðir og matsfyrirtækið Moody's segir auknar líkur á því að Spánn muni þurfa á utanaðkomandi björgun að halda.

Katalóníuhérað hefur óskað eftir fjárhagsaðstoð frá spænska ríkinu, en í frétt BBC er haft eftir fjármálaráðherra héraðsins að Katalónía hafi í engin önnur hús að venda. Valensíuhérað hefur þegar óskað eftir ríkisaðstoð.

Ávöxtunarkrafa á tíu ára skuldabréfum spænska ríkisins fór í 7,6% í gær og krafan á sex mánaða ríkisvíxla var í 3,7%. Vegna vandræða spænska ríkisins og þess að auknar líkur eru nú taldar á því að evruríkin muni þurfa að hlaupa undir bagga með spáni hefur Moody's breytt horfum á AAA lánshæfiseinkunn þýska ríkisins í neikvæðar.