Subway er orðin stærsta alþjóðlega skyndibitakeðjan þegar horft er til fjölda veitingastaða um víða veröld. Samkvæmt frétt í Wall Street Journal eru 33.749 veitingastaðir reknir undir merkjum Subway í heiminum. Sambærileg tala fyrir hamborgarakeðjuna McDonalds, sem hingað til hefur verið með flest útibú, er 32.737 að því er fram kemur í gögnum sem send oru Bandaríska fjármálaeftirlitinu (SEC) í síðasta mánuði.

Subway opnaði sinn fyrsta veitingastað utan Bandaríkjanna árið 1984 í Bahrain. Af þessum tæplega 34 þúsund veitingastöðum eru rétt rúmlega 24 þúsund í Bandaríkjunum. Framkvæmdastjóri hjá Subway reiknar með að fleiri staðir verði utan Bandaríkjanna árið 2020 en í Bandaríkjunum. Á síðasta ári námu tekjur samlokukeðjunnar 15,2 milljörðum Bandaríkjadala og þar af námu tekjurnar í Bandaríkjunum 10,5 milljörðum dala. Heimamarkaðurinn er því enn sem komið er mikilvægur.

McDonalds selur mest

Hamborgarakeðjan McDonalds hefur hins vegar vinningin þegar kemur að veltu. Tekjurnar í fyrra námu 24 milljörðum Bandaríkjadala. Talskona keðjunnar segir við Wall Street Journal að markmiðið sé ekki bara að stækka heldur að verða betri; hlusta á og fullnægja þörfum viðskiptavina.

Alþjóðlegar bandarískar veitingakeðjur horfa í auknum mæli út fyrir landsteinana eftir sóknaratækifærum. Mikið atvinnuleysi í Bandaríkjunum og ótryggur efnahagur hefur haft áhrif á reksturinn. Þannig eru stjórnendur Starbucks-keðjunnar sagðir áætla að þrefalda fjölda útibúa í Kína. Félagið sem rekur Dunkin' Donuts og Baskin-Robbins hyggjast opna þúsund nýjar verslanir á næstu árum í Kína og sína fyrstu í Víetnam. Subway hefur  þegar opnað þúsundasta veitingastaðinn í Asíu og þann fyrsta í Víetnam.