Fleiri þingmenn breska Íhaldsflokksins vilja ganga úr Evrópusambandinu en þeir sem vilja vera þar áfram. Þetta kemur fram á vef Breska ríkisútvarpsins BBC.

Mikil pressa er á þingmönnum flokksins að styðja áframhaldandi veru innan Evrópusambandsins frá stuðningsmönnum David Cameron forsætisráðherra.

Meirihluti ráðherra flokksins er fylgjandi áframhaldandi veru í sambandinu, eða 23 á móti 7 sem vilja yfirgefa sambandið.

Samkvæmt ríkisútvarpinu eru 108 þingmenn Íhaldsflokksins fylgjandi útgöngu Bretlands úr sambandinu, en 105 vilja að konungsríkið sé þar áfram aðili. Enn eru mjög margir þingmenn óákveðnir, eða 117.

Á pólitísku vefsíðunni Guido Fawkes , sem Paul Staines heldur úti, er staðan önnur. Samkvæmt Staines vilja 148 þingmenn að Bretland sé áfram í Evrópusambandinu, 138 vilja ganga úr því og 44 eru óákveðnir. Margir telja Staines þekkja vel til innan Íhaldsflokkins