Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að fáir hafi gert sér hugarlund um að vörur yrðu seldar undir kostnaðarverði í Costco. Hann segir enn fremur fyrirséð að fleiri íslenskir framleiðendur muni segja upp starfsfólki ef fram heldur sem horfir. Sigurður ræddi fréttir af erfiðleikum íslenskra framleiðenda í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær.

Síðastliðinn þriðjudag var sagt frá því að Papco, eini íslenski framleiðandinn á hreinlætispappír, þurft að segja upp sex starfsmönnum vegna sölusamdráttar, sem að mati aðstoðarforstjóra fyrirtækisins má rekja til komu verslunarisans Costco til Íslands. Hann segir að í Costco séu vörur seldar undir kostnaðarverði út úr búð. Því sé ekki hægt að nálgast verðin hjá Costco því pappírinn sé á heimsmarkaðsverði eins og olía og stál.

Sigurður tekur jafnframt fram að Samtök iðnaðarins hafi verið í góðum samskiptum við félagsmenn sína og að samtökin hafi fengið fjöldamörg dæmi sem renni undir þá fullyrðingu að Costco selji vörur undir kostnaðarverði. Hann bætir við að kröftug innkoma hafi skapað vissa óvissu á markaðnum. Sigurður segir að samtökin hafi áhyggjur af stöðunni.