MMR kannaði nýlega hvort Íslendingar ætluðu að ferðast innanlands eða utan í sumarfríinu. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust 73,8% ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu, þar af sögðust 42,4% aðeins ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu. Til samanburðar sögðust 83,1% ætla að ferðast innanlands árið 2014 og 52,1% sögðust eingöngu ætla að ferðast innanlands sama ár.

Fleiri sögðust ætla að ferða utanlands í sumarfríinu í ár en í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 41,6% ætla að ferðast utanlands í sumarfríinu og 10,3% sögðust eingöngu ætla að ferðast utanlands. Til samanburðar sögðust 38,2% ætla að ferðast utanlands árið 2013 og 7,2% sagðist eingöngu ætla að ferðast utanlands sama ár.

Þá sögðust fleiri ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu núna. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 16,0% ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu, borið saman við 9,7% í fyrra.

Svarfjöldi könnunarinnar var 956 einstaklingar og tóku 95,7% afstöðu til spurningarinnar. Nánar má lesa um niðurstöðurnar á vef MMR.