Bandarísk yfirvöld hyggjast kæra og handtaka fleiri einstaklinga í tengslum við rannsókn á spillingu innan knattspyrnuheimsins. Þetta segir yfirmaður hjá embætti skattrannsóknarstjóra vestanhafs. Bloomberg greinir frá.

Fjórtán einstaklingar, þeirra á meðal níu háttsettir stjórnendur hjá FIFA, voru handteknir í Sviss á þriðjudaginn og framseldir til Bandaríkjanna. Mennirnir eru sakaðir um að hafa tekið þátt í mútugreiðslum upp á 150 milljónir dollara eða sem samsvarar um 20 milljörðum íslenskra króna.

Richard Weber, yfirmaður rannsóknardeildar bandarísku skattheimtunnar, segir að framhald málsins ráðist af framburði hinna handteknu. Sannanir liggi fyrir til að ráðast í frekari handtökur. Við rannsókn málsins hafi verið notast við fjárhagsgögn frá 33 löndum. Rannsóknin hafi staðið yfir í mörg ár.