MMR hefur birt niðurstöður úr könnun þar sem athuguð var afstaða almennings til þess að ríkið seldi eignarhlut sinn í Landsbankanum, Landsvirkjun og Ríkisútvarpinu. Meirihluti var andvígur því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í fyrirtækjunum þremur.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 41,5% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsbankanum nú, borið saman við 45,6% í janúar 2012. Þá sögðust 28,9% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Ríkisútvarpinu nú, en hlutfallið nam 22,8% í janúar 2013. Loks voru 13,2% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsvirkjun nú, samanborið við 19,6% í janúar 2012.

Þeir sem styðja ríkisstjórnina vildu frekar einkavæða Ríkisútvarpið en þeir sem ekki styðja ríkisstjórnina. Af þeim sem tóku afstöðu og styðja ríkisstjórnina sögðust 45,2% vera fylgjandi því að einkavæða Ríkisútvarpið, borið saman við 19,6% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.

Þegar viðhorf er skoðað eftir stuðningi við flokka vildu hlutfallslega flestir þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn einkavæða fyrirtækin þrjú.

Af þeim sem tóku afstöðu og styðja Sjálfstæðisflokkinn sögðust 59,2% fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn Landsbankanum, borið saman við 18,3% Vinstri-grænna, 50,9% voru fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Ríkisútvarpinu, borið saman við 11,7% Vinstri-grænna og 20,3% voru fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Landsvirkjun, borið saman við 4,1% þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn.