Um 41,6% Íslendinga vilja að Ísland sé umsóknarríki að ESB, 42,5% eru því andvíg, að því er kemur fram í nýrri könnun sem MMR gerði fyrir vefritið Andríki . Af þeim sem spurðir voru tóku 15,9% ekki afstöðu. Ef aðeins eru teknir þeir sem tóku afstöðu eru 50,5% andvígir því að Ísland sé umsóknarríki að ESB en 49,5% fylgjandi.

Konur eru frekar á móti aðildarumsókn

Konur eru andsnúnari aðildarumsókninni en karlar, en 52,6% karla vilja að Ísland sé umsóknarríki, en 45,6% kvenna. Þá er aðeins einn aldurshópur, 30-49 ára, þar sem meirihluti er fyrir því að Ísland sé umsóknarríki og mælist hann 52,5%. Í öðrum aldurshópum eru fleiri á móti en með því að Ísland sé umsóknarríki.

Meiri andstaða á landsbyggðinni

Andstaðan er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en 36,9% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins vilja að Ísland sé umsóknarríki, en 57,6% íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað varðar starfsstéttir er stuðningur við umsóknina mestur meðal sérfræðinga, stjórnenda, tækna og skrifstofufólks, en minnstur meðal bæanda, sjómanna og iðnaðarmanna.

Þegar tekjur eru skoðaðar er stuðningur við umsóknina mestur meðal þeirra þar sem heimilistekjur eru hæstar. Mælist hann 54,9% hjá þeim sem hafa 800.000-999.999 krónur á mánuði í heimilistekjur og 58,6% hjá þeim þar sem heimilistekjur eru milljón krónur eða meira. Hjá þeim þar sem heimilistekjur eru 250.000 krónur eða minna er stuðningurinn 45,8%.

Eftir því sem menntun aðspurðra er meiri því meiri er stuðningurinn við umsóknina. Stuðningur við að Ísland sé umsóknarríki að ESB er minnstur hjá þeim sem hafa grunnskólamenntun, eða 41,7%, en er 61,8% hjá þeim sem hafa háskólapróf.

Spurt var: „Vilt þúi að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu.“ Úrtakið var 1.060 Íslendingar á aldrinum 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Alls tóku 891 afstöðu til spurningarinnar en 169 tóku ekki afstöðu.