Rúmlega níu þúsund umsóknir bárust um skólavist í Háskóla Íslands á haustmisseri. Þetta er þriðja árið í röð sem umsóknir eru fleiri en níu þúsund. Rúmur helmingur umsækjenda eða 5.700 sóttu um grunnnám en afgangurinn um framhaldsnám. Fram kemur í tilkynningu frá HÍ að örasti vöxturinn síðastliðin þrjú ár hafi verið í tölvunarfræði en umsóknir um það nám eru nærri 300 nú. Það er þrefalt fleiri umsóknir en árið 2010. Þá sóttu 1.084 um nám á Verkfræði- og náttúruvísindasviði , um 400 sóttu um nám í tölvunarfræði- og hugbúnaðarverkfræði og um 70 í umhverfis- og byggingarverkfræði.

Umsóknir um framhaldsnám á meistarastigi eru 3.360 og hafa þær aldrei verið fleiri. Til samanburðar voru þær 3.122 í fyrra.

Þá bárust Heilbrigðisvísindasviði 1.309 umsóknir og þar af hafa 360 skráð sig til inntökuprófs í læknisfræði og sjúkraþjálfun sem fara fram í vikunni. Auk þess bárust Sálfræðideild 344 umsóknir um grunnnám þetta árið og Hjúkrunarfræðideild 208. Umsóknum um  nám í lyfjafræði heldur áfram að fjölga eins og undanfarin ár.

Deildum Félagsvísindasviðs bárust 1.307 umsóknir, flestar í viðskiptafræði, eða 418, og 299 í lögfræði. Þá bárust 137 umsóknir um grunnnám í mannfræði, sem er um 30% aukning á milli ára, og í félagsráðgjöf voru umsóknir 134.

Hugvísindasviði bárust 1.263 umsóknir og þar er íslenska sem annað mál vinsæl sem fyrr en alls reyndust umsóknir um BA-nám og hagnýtt nám í greininni 336 talsins. Auk þess bárust 266 umsóknir um grunnnám í ensku.

Umsóknir um grunnnám á Menntavísindasviði eru 723. Athygli vekur að umsóknum um nám í leikskólakennarafræði fjölgar á ný og eru þær 81. Þá fjölgar umsóknum í uppeldis- og menntunarfræði en þær reyndust 100 talsins.