Gestir landsins eru áfram einkar sáttir við heimsóknir sínar hingað til lands, en samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var fyrir Ferðamálastofu stóðst ferðin væntingar 95,9% svarenda.

Fleiri myndu koma aftur

Er það álíka hlutfall og í síðustu vetrarkönnun, en þá var hlutfallið 95,4%.

Taldi tæplega 90% svarenda að þau myndu ferðast aftur til landsins, sem er talsvert hærra hlutfall en var fyrir tveimur árum, en þá sögðust 83,3% vera líkleg til að ferðast aftur til landsins.

Hátt hlutfall myndi mæla með Íslandi

Í könnuninni var einnig spurt um hversu líklegir eða ólíklegir svarendur væru til að mæla með Íslandi sem áfangastað fyrir aðra ferðamenn á skalanum 1 - 10.

Niðurstaðan gefur svokallaðan NPS stuðul, eða Net Promoter Score sem er mælikvarði sem hægt er að bera saman við önnur lönd.

Niðurstaðan var að NPS stuðullinn fyrir Ísland mældist 80,7 stig, sem teljast verður hátt á alþjóðavísu, en sambærilegar mælingar gefa til að mynda 76 stig fyrir Nýja Sjáland á síðasta ári, 70 stig fyrir Danmörku fyrir tveimur árum og 62,7 stig fyrir Bresku Kólumbíu í Kanada árið 2013.