„Þetta eru bara þessar hefðbundnu árlegu veirusýkingar en inflúensan er ekki komin til landsins,“ segir Þórólfur Guðnason, yfirlæknir hjá sóttvarnarlækni. En einhverjir hafa eflaust tekið eftir því að kvefpestir hafa látið á sér kræla á vinnustöðum og í skólum nú í byrjun haustsins. Þórólfur segir ekki hægt að spá fyrir hversu svæsin inflúensan verði nú í vetur.

„Inflúensan tekur alltaf einhverjum breytingum á milli ára og yfirleitt kemur hún um áramótin. Í ár er hún ekki byrjuð að ganga á norðurhveli jarðar en hún getur alveg komið í nóvember eða janúar eða febrúar,“ segir Þórólfur og bætir við að enginn viti nákvæmlega hvers vegna hún byrji að ganga yfir vetrartímann en hitastig og breytingar á háttalagi manna séu meðal annars þættir sem spila inn í.

„Börnin eru síðan smitberar í samfélaginu og dreifa þessu heim. Þau eru næmari fyrir þessum sýkingum og eru að auki meira ofan í hvert öðru.“