*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 2. febrúar 2018 10:27

Flest börn fæddust árið 2009

Í tilefni fullveldisafmælisins hefur Hagstofan tekið saman tölur yfir fæðingartíðni á Íslandi allt frá ofanverðri 17. öld.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sýna þær að frjósemi íslenskra kvenna, sem lengst af hefur verið töluvert hærri en nágrannaþjóðanna, sé að hætta að skera sig úr. Flestar fæðingar hafi orðið árið 2009, sem sé eina árið í sögu landsins þar sem fjöldi lifandi barna hafi verið yfir 5 þúsund, eða 5.026 börn, þar af 2.561 drengur og 2.465 stúlkur. 

Síðan þá hefur dregið saman með Íslenskum, dönskum og sænskum konum svo það virðist sem sérstaða Íslendinga sem frjósamrar þjóar sé liðin undir lok að því er Hagstofan greinir frá. Til marks um þessar breytingar nefnir stofnunin að það hafi verið meiri frjósemi í viðmiðunarlöndunum tveimur árið 2016 heldur en á Íslandi. 

Frjósemin var með því hæsta í Evrópu

Fram á tíunda áratug síðustu aldar hafi frjósemin hins vegar verið með því hæsta í Evrópu, en hún hafi aukist meira hér en annars staðar þar sem hún jókst líka, á stríðsárunum og eftirstríðsárunum. Til marks um það hafi næst flest börn fæðst á Íslandi nærri hálfri öld fyrir hápunktinn árið 2009, eða árið 1960 þegar alls fæddust 4.916 börn. 

Þá var hins vegar eins og gefur að skilja miðað við fólksfjölda frjósemin mun hærri, mældur í fjölda lifandi barna á hverja konu.

Fullveldisárið 1918 var fjöldinn um 3,8 börn á hverja konu, en það ár fæddust 2.441 börn. Árið 1939 var frjósemin komin niður í 2,7 börn á hverja konu en síðan náði hún hámarki árið 1960 með 4,3 börnum á hverja konu. Undanfarin ár hefur frjósemin hins vegar mælst rétt undir 2,0 börnum á hverja konu, sem er nálægt jafnvægi.

Aukin menntun og atvinnuþátttaka dregið úr frjósemi

Bendir Hagstofan á að lækkun frjósemi sé eins og gefur að skilja nátengd hækkandi meðalaldri mæðra, sem sé aftur tengt hærra menntunarstigi og meiri atvinnuþátttöku. Meðalaldur kvenna sem fæddu sitt fyrsta barn var um 22 ár á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar, en hann var kominn í 23,3 ár árið 1986, og 27,7 ár árið 2016.

Ef fæðingartíðnin er skoðuð eftir aldurshópum sést að á fyrstu árum fullveldisins var fæðingartíðni mæðra á þrítugs og fertugsaldri svipuð, en í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar varð fæðingartíðnin hæst hjá mæðrum undir þrítugu. 

Á þessum tíma var sérstaklega áberandi há fæðingartíðni mæðra undir tvítugu, sem náði hámarki árið 1966, en hefur dalað hratt eftir það. Eftir árið 1985 jókst síðan fæðingartíðni kvenna sem eignuðust börn á fertugsaldrinum, en síðustu ár hefur fæðingartíðni í aldurshópnum 20-29 ára og 30-39 ára verið mjög svipuð.

Nánar má lesa hagtölur sem tengist fullveldistímanum á sérstökum vef Hagstofunnar fyrir sögulegar hagtölur.