Arion Banki á ráðandi hlut í þremur fyrirtækjum og tveimur svínabúum. Bankinn ræður yfir 32 öðrum fyrirtækjum í óskyldri starfsemi. Þar af eru 25 eignarhaldsfélög sem bankinn hefur leyst til sín sem hluta af úrlausnarferli. Flest þeirra eru á leið í þrot eða í slitameðferð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion Banka í tengslum við umfjöllun fjölmiðla þessa efnis að bankarnir eigi 137 félög í óskyldri starfsemi.

Í tilkynningu Arion Banka segir að af þeim rekstrarfélögum sem eru í samkeppnisrekstri er Arion banki aðeins með ráðandi hlut í sex félögum. Þar af hafa tvö félög þegar verið seld og salan bíði samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Þetta eru félögin N1 og BM Vallá. Hin félögin eru Hagar, sem unnið er að skráningu á markað, auk Pennans, FramFood og Sigurplasts, á fyrri helmingi næsta árs.

Til viðbótar er bankinn minnihlutaeigandi í um sex rekstrarfélögum en þar er bankinn yfirleitt háður meirihluta eigendum félagsins um sölu á eignarhlut sínum, líkt og segir í tilkynningunni.

Því má ljóst vera að af þessum 137 félögum þá mun Arion banki, eftir skráningu Haga í Kauphöll, aðeins vera með ráðandi hlut í tveimur rekstrarfélögum sem eru í samkeppni á innanlandsmarkaði, Pennanum og Sigurplasti.