Nýskráningum einkahlutafélaga fækkaði um 9% á milli ára ef miðað er við þriðja ársfjórðung þessa og síðasta árs. Í heildina voru stofnuð 529 ný einkahlutafélög á þriðja ársfjórðungi þessa árs, en á sama tímabili fyrir ári voru þær 584. Gjaldþrotum fækkaði einnig, eða um 12% að því er Hagstofan greinir frá, og fóru þau úr því að vera 120 í 106 í júlí, ágúst og september.

Flestar nýskráningar á tímabilinu voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 99, og fjölgaði þeim um 5% frá þriðja ársfjórðungi 2016. Einnig má nefna fjölgun um 11% í fjármála- og vátryggingarstarfsemi þar sem nýskráningar voru 69 á tímabilinu.

Nýskráningar í fasteignaviðskiptum voru 73 og fækkaði þeim um 21% frá sama tímabili fyrra árs. Á tímabilinu frá október 2016 til september 2017 voru skráð 2.588 ný einkahlutafélög, og er það fækkun um 4% miðað við 12 mánuði þar á undan.

Flestar gjaldþrotabeiðnir á þriðja ársfjórðungi voru í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum eða 30, og fjölgaði þeim um 20%. Gjaldþrotabeiðnir frá október 2016 til september 2017 voru 713 og fækkaði þeim um 19% miðað við 12 mánuði þar á undan.