*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 25. júlí 2016 12:47

Flest ný störf í fræðslustarfssemi

Þó ferðaþjónustan sé ábyrg fyrir mestu heildarfjölguninni hafa flest ný störf á landsbyggðinni verið í fræðslustarfssemi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heildarvinnustundir hafa aukist samfleytt á íslenskum vinnumarkaði síðustu fjórtán fjórðunga, en atvinnuleysi hefur ekki verið lægra hér á landi síðan í ársbyrjun 2009. Það mælist nú 3,5% samkvæmt könnunum Hagstofunnar og 2,6% samkvæmts skráningu Vinnumálastofnunar. Jafnframt hefur atvinnuþátttaka vaxið ört og er að nálgast fyrri hágildi.

Flest ný störf í ferðaþjónustu

Síðastliðin ár hefur auknum efnahagsumsvifum verið mætt með fjölgun starfa fremur en lengingu vinnutíma, en þegar hagkerfið var að taka sín fyrstu skref í átt að bata jókst framleiðslan fyrst og fremst með kröfum um aukna framleiðni.

Ferðaþjónustan er ábyrg fyrir bróðurparti nýrra starfa, en um 16.300 störf í heildina hafa bæst við íslenskan vinnumarkað á síðustu árum, þar af 6.000 á síðasta ári. Koma þau í stað þeirra 12.000 starfa sem töpuðust á árunum 2008-2010, en á íslenskum vinnumarkaði eru um 204.000 manns samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Meiri hlutfallsaukning á landsbyggðinni

Þó mun fleiri störf í heildina hafi orðið til á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni, þá er aukningin 11,2% fyrir utan höfuðborgina, en 10% í borginni, frá því að hvort svæði fyrir sig náði botngildi sínu í starfafjölda. Er það árið 2010 fyrir höfuðborgina en 2011 fyrir landsbyggðina.

Flest ný störf á landsbyggðinni hafa orðið til í fræðslustarfssemi, en fjölgunin þar er 40% frá árinu 2011, eða um 2.600 störf. Jafnframt hafa störf í rekstri gistiheimla og veitingarekstri fjölgað umtalsvert sem og störfum í flutningum og verslunargeiranum. Upplýsinga- og fjarskiptageirinn hefur verið umsvifamikill í að bæta við sig störfum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningadeildar Arion banka.