Bjartsýni á tilkomu nýrra bóluefna við kórónuveirunni jókst í vikunni en hagvaxtarspár gera ráð fyrir að bóluefni við COVID-19 verði farin að hafa teljandi áhrif á hagkerfi heimsins á seinni hluta næsta árs, jafnvel fyrr. Mestar væntingar eru til um 10 rannsakenda sem eru á lokametrunum, en það getur munað töluverðu um hvaða þjóðir njóti ábatans eftir því hverjir vinna kapphlaupið.

Áður en fréttir bárust um góðan árangur af bóluefni Pfizer og samstarfsaðila þeirra, höfðu greinendur Deutsche Bank veðjað á að bóluefni sænsk-breska fyrirtækisins AstraZeneca, í samstarfi við Oxford háskóla, yrði það sem hefði mestu mögulegu útbreiðsluna. Um svipað leyti og sú greining birtist þurftu þó bæði Astra-Zeneca og Johnson & Johnson að stöðva sínar rannsóknir um tíma vegna veikinda þátttakenda.

Af þeim bóluefnum sem eru í þróun hafa stjórnvöld í flestum ríkjum tryggt sér bóluefni AstraZeneca, þar með talið Evrópusambandið um 400 milljónir skammta, sem Ísland nyti góðs af í gegnum EES samningana, ef þróun þeirra heppnast. Eftir fréttir vikunnar frá Pfizer hefur ESB samið um allt að 300 milljónir skammta frá fyrirtækinu, en fyrirtækið hefur sagt að það muni sækja um neyðarnotkun á bóluefninu til bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins strax í þriðju viku nóvembermánaðar. Býst síðarnefnda fyrirtækið við að geta framleitt um 50 milljónir skammta fyrir lok árs og 1,3 milljarða skammta á næsta ári.

Mat greinenda hjá Miðstöð um alþjóðlega þróun, er að það séu 50% líkur á því að nægilega öruggt og virkt bóluefni geti komist í gegnum heilbrigðiseftirlitsstofnanir í apríl á næsta ári, og að það takist með 85% líkum fyrir lok næsta árs. Hins vegar geti áskoranir í framleiðslu gert það ólíklegt að hægt verði að bólusetja allt mannkynið fyrr en í september 2023.

Bjartsýnni spár búast við almennri drefingu fyrir næsta sumar

Líkt og farið hefur verið yfir í Viðskiptablaðinu síðustu vikur, búast varkárar spár íslenskra banka og hagstofnana við því að hagvöxtur taki við sér á næsta ári eftir samdrátt þessa árs, og verði á bilinu 2,5% upp í 3,9%. Strax árið 2022 eru spárnar á bilinu 3,1% upp í 5,9%.

Munurinn á spánum byggir einna helst á ólíkum forsendum um hvenær bóluefni komist í dreifingu þannig að áhrif COVID-19 á hagkerfi heimsins verði farin að dvína. Þannig byggja bjartsýnni spár á að bóluefni verið komið í almenna dreifingu fyrir sumarið 2021. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggir á að sóttvarnaaðgerðir muni vara fram á næsta ár, en fjara út eftir því sem útbreiðsla bóluefnis eykst. Býst AGS við því að staðbundin smit verði þar með alls staðar komin í lág gildi fyrir árslok 2022.

Áætlaður tími klínískra rannsókna á bóluefni við kórónuveirunni á þriðja fasa
Áætlaður tími klínískra rannsókna á bóluefni við kórónuveirunni á þriðja fasa
Ólíkt áðurnefndu bóluefni sem er í þróun hjá Oxford og AstraZeneca, er líklegt að ýmis bóluefni frá öðrum fyrirtækjum og rannsóknaraðilum muni hafa takmarkaða útbreiðslu, að minnsta kosti til að byrja með. Þannig hefur Bretland til að mynda ekki gert samninga við bandaríska fyrirtækið Moderna, en ef það verður fyrst á markað gætu ríki Norður-Ameríku fengið töluvert forskot í að koma hjólum hagkerfa sinna í gang. Sama á við, þó í minna mæli, ef bóluefni Pfizer og samstarfsaðila verður fyrst tilbúið.

Bæði bóluefni Moderna og Pfizer hópsins byggja á notkun mRNA kjarnasýra sem leysast upp sé þeim ekki haldið í miklum kulda, eða meira en  -80 gráður á selsíus, sem aftur flækir dreifingu og notkun þess, sérstaklega í vanþróaðri heimshlutum. Flest önnur bóluefni þurfa einungis hefðbunda kælingu.

Moderna var fyrsta fyrirtækið til að hefja klínískar rannsóknir á sínu bóluefni, þann 16. mars síðastliðinn, eða um það leyti sem fyrsta bylgja heimsfaraldursins skall hvað harðast á Vesturlöndum. Flugbann bandarískra stjórnvalda var boðað nokkrum dögum fyrr, þann 12. mars. Þriðji fasi rannsóknanna hófst síðan í lok júlí síðastliðins og er þeim ætlað að ljúka í júní á næsta ári. Af 30 þúsund sjálfboðaliðum í rannsókninni eru 7 þúsund sem voru 65 ára og eldri. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar samið um 1,5 milljarða dala, andvirði um 211 milljarða íslenskra króna, fyrir 100 milljónir skammta frá fyrirtækinu.

Þýska fyrirtækið BiNTech, í áðurnefndu samstarfi við bandaríska lyfjarisann Pfiezer og kínverska lyfjaframleiðandann Fosun Pharma, byrjuðu sömuleiðis í júlí með klínískar tilraunir sem blanda saman fösum 2 og 3, bæði í Bandaríkjunum, sem og Argentínu, Brasilíu og Þýskalandi, en í september ákváðu þau að víkka út tilraunirnar í Bandaríkjunum upp í 43 þúsund þátttakendur. Í október fengu þau síðan fyrst allra þar í landi heimild til að prófa börn niður í allt að 12 ára aldur. Félögin hafa sömuleiðis samið við bandarísk stjórnvöld um 100 milljónir skammta með möguleika á 500 milljónum fleiri skömmtum.

Mismikil þolinmæði eftir rannsóknum

Tilgangur bóluefnatilrauna er hvort tveggja að skoða virkni lyfsins sem og mögulegar skaðlegar aukaverkanir af því. Þær fara alla jafna fram í þremur fösum á mönnum, eftir forklínískar rannsóknir sem gerðar eru á dýrum. Forklínískar rannsóknir taka alla jafna eitt til tvö ár og síðari fasarnir frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár, en allir hafa þeir verið styttir hjá mörgum fyrirtækjum til að koma COVID-19 bóluefni út sem fyrst.

Fyrsti fasi klínísku rannsóknanna sjálfra, eins og það kallast þegar tilraunir eru gerðar á mönnum, fela í sér að litlum hópi, oft 20 til 100, heilbrigðra einstaklinga, er gefið bóluefni sem er í þróun til að skoða öryggi lyfsins, aukaverkanir og til að staðfesta að það hafi áhrif á ónæmiskerfið. Þessi fasi hefur í mörgum tilfellum nú verið blandaður við fasa tvö þar sem lyfið er alla jafna gefið stærri hóp, nokkrum hundruð til um þúsund manns, í öllum aldurshópum, í mismunandi magni til að skoða hæfilegan skammt.

Í þriðja fasa nokkrum tugum þúsunda sjálfboðaliða aflað, þar sem helmingurinn fær bóluefnið og hinn helmingurinn lyfleysu og fylgst er með þeim í allt að tvö ár, það er hvort þeir fái sjúkdómseinkenni COVID-19 og þá hversu sterk þau verða. Bæði Kína og Rússland hafa samþykkt notkun bóluefna án þess að bíða eftir niðurstöðum þriðja fasa tilraunanna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .