Óhætt er að segja að líflegt hafi verið í kauphöllinni í dag. Heildarviðskipti námu 5,5 milljörðum króna, og fjöldi viðskipta var 605, en það er mesti fjöldi á einum degi á árinu. Úrvalsvísitalan hækkaði um 4,7%.

Í hádeginu var tilkynnt um fyrirhuguð kaup Icelandair á Wow air , og viðskipti með bréf Icelandair stöðvuð í klukkutíma. Þegar opnað var fyrir þau aftur snarhækkuðu bréfin, og þegar mest lét nam dagshækkunin tæpum 60%. Icelandair er hluti af úrvalsvísitölunni, OMXI8, og nemur hlutdeild féalgsins 8,4%. Það má því rekja meirihluta hækkunar vísitölunnar, tæp 3,3%, til hækkunar Icelandair.

Þegar markaðir lokuðu stóðu bréfin í slétt 11 krónum á hlut, sem er rétt tæp 40% hækkun frá opnun, eftir 277 viðskipti með bréfin upp á samtals 948 milljónir króna. Ekki hafa verið fleiri viðskipti með bréf eins félags, ef frá eru taldir skráningardagar nokkurra félaga, frá því fyrir hrun.

Næstmest hækkun var á bréfum Sjóvár, 5,14% í 144 milljón króna viðskiptum. Þar á eftir komu bréf Arion banka, sem hækkuðu um 4,15% í 88 milljón króna viðskiptum, en bankinn hefur lánað Wow air töluvert fé.

Næstmest viðskipti á eftir Icelandair voru með bréf Reita, sem hækkuðu um 1,84% í 589 milljón króna viðskiptum, og Símans, sem hækkaði um 3,66% í 559 milljón króna viðskiptum. Velta með bréf annarra félaga var undir hálfum milljarði.

Sýn lækkaði eitt félaga í kauphöllinni í dag, um 1,82% í 188 milljón króna viðskiptum.