Velta með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 1.293.942.571 krónum í 87 viðskiptum í dag. Þá áttu sér stað ein viðskipti á First North, þar sem veltan nam 513.000 krónum. Öllu meiri velta var aftur á móti á skuldabréfamarkaði, þar sem 13.711.839.355 krónur skiptu um hendur í 104 viðskiptum. Heildarvísitalan, OMXIPI, hefur hækkað um 23,73% frá áramótum, þar af um 0,49% í dag.

Mest var hækkun á bréfum Icelandair Group, eða um 2,25% í 15 viðskiptum þar sem heildarviðskiptin námu 281.043.450 krónum. Bréf Sjóvár hækkuðu um 1,37% í sex viðskiptum, en veltan nam 57.907.344 krónum. Þá var talsverð hækkun hjá Eik fasteignafélagi, eða um 1,15% í einum viðskiptum. Veltan nam 2.812.000 krónum með bréfin.

Verð á bréfum Eimskipafélags Íslands lækkuðu um 1,26% í fimm viðskiptum, þar sem 170.099.300 krónur fluttust manna á milli. Gengi HB Granda lækkaði lítillega, eða um 0,13% í tveimur viðskiptum sem námu einungis 79.080 krónum. Önnur félög hækkuðu öll eða stóðu í stað.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,35% í dag, en allir flokkar sem viðskipti voru með hækkuðu í verði.