Exista, móðurfélag Skipta, gekk í gegnum nauðasamninga síðastliðið haust. Í þeim fólst að kröfuhafar félagsins breyttu um 10% af 400 milljarða króna skuldum Existu í hlutafé og tóku í kjölfarið yfir félagið. Auk Skipta eru helstu eignir Existu tryggingafélagið VÍS og Lýsing. Nú þegar búið er að ganga frá samkomulagi við stærstu lánveitendur Skipta, sem eru að stórum hluta þeir sömu og eiga Existu, herma heimildir Viðskiptablaðsins að af stað muni fara mikil endurskipulagning á Existu. Stefnt er að því að skrá undirliggjandi eignir, VÍS og Skipti, á markað. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur einnig verið rætt um hvort rétt sé að skipta Skiptum upp í fleiri en eitt félag áður en að skráningu kemur.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem tengjast endurskipulagningu Existu eru allir sammála um að ekki komi til greina að skrá Existu á markað eins og félagið er. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sem er einn stærsti eigandi Existu, tók undir það sjónarmið í viðtali við Viðskiptablaðið í mars. Þar sagðist hann hafa meiri trú á því að undirliggjandi rekstrarfélög þess félags verði skráð ein og sér á markað heldur en Exista eins og það er í dag. Tími hinna blönduðu eignarhaldsfélaga sé liðinn í bili.