Íbúðalánasjóður átti samtals 1.894 íbúðir um áramótin að því er fram kemur í svari Eyglóar Harðardóttur húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Tæplega helmingur íbúðanna, eða 916 íbúðir, er í til sölu hjá fasteignasölum um land allt. Alls eru 889 íbúðir í útleigu, verið er að undirbúa sölu 68 íbúða og undirbúa leigu 21 íbúðar. Þegar eignir Íbúðalánasjóðs eru skoðaðar eftir landsvæðum kemur í ljós að ríflega 41% íbúðanna eru á Suðurnesjum, eða 781 íbúð. Um 18% íbúðanna eru á höfuðborgarsvæðinu eða 341 íbúð.

Steinunn Þóra spurði einnig hversu margar íbúðir væru í eigu Kletts leigufélags, en það er sjálfstætt félag í eigu Íbúðalánasjóðs. Í svari ráðherra kemur fram að Klettur eigi 450 íbúðir, þar af séu 433 í útleigu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort fleiri eignir sjóðsins verði færðar til Kletts. Þar sem Klettur er fjármagnað af Íbúðalánasjóði hefur fjármögnunarferlið verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) en engin svör hafa enn borist frá stofnuninni.