Níu af hverjum þúsund ferðatöskum sem fara í gegnum evrópskar flughafnir er stolið, þær týnast eða finnast löngu síðar. Hlutfallið er talsvert lægra á flugvöllum í Asíu og N-Ameríku, samkvæmt nýrri skýrslu fyrirtækisins SITA sem Túristi greinir frá.

Í Asíu týnast tvær af hverjum þúsund töskum og í N-Ameríku er hlutfallið þrjár af hverjum þúsund.

Árið 2007, þegar SITA hóf að taka saman upplýsingar um týndan farangur, týndust sautján af hverjum þúsund töskum á evrópskum flugvöllum. Ástandið hefur því batnað um nærri helming á síðustu árum. Það er þó langt frá því að ástandið sé í dag jafn gott og það var vestanhafs og í Asíu árið 2007. Farangurskerfi evrópskra flugvalla er því greinilega dálítið langt frá því að vera jafn skilvirkt og þekkist annars staðar.