Um það bil helmingur Íslendinga mun snæða hamborgarhrygg á aðfangadag. Þetta kemur fram í könnun MMR um aðalréttarvenjur Íslendinga á aðfangadagskvöld.

Hlutfall hamborgarhryggsins helst nokkuð fast gegnum árin, en það hefur flökt hæst upp í 52,9% en lægst niður í 47,5%. Í ár er hlutfall hamborgarhryggsins hins vegar 49,8%.

Þá eru 11% með lambakjöt á boðstólum - hangikjót þá ómeðtalið - og hlutfall rjúpu er 7,2%. Þá svöruðu 8,2% að kalkúnn væri í aðalréttinn, og 3,8% sögðu svínakjöt.

Þá var nokkur munur milli aldurshópa á aðalréttavalinu. Þeir sem tilheyrðu hópunum 50-67 ára og 68 ára og eldri voru ólíklegri en aðrir hópar til að kjósa sér að neyta hamborgarhryggsins.

Einnig ber að nefna að einhverra hluta vegna eru kjósendur Pírata þeir sem líklegastir eru til að snæða hamborgarhrygginn um jólin. Þá eru kjósendur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks líklegastir til að snæða rjúpu á aðfangadagskvöld.