Tveir af hverjum þremur Íslendingum eða 66% eiga snjallsíma, samkvæmt nýrri könnun MMR . Í fyrri könnun MMR í október í fyrra áttu 53,8% þeirra sem þátt tóku í könnun snallsíma en 38% í nóvember árið 2011. Hlutfallið hér er minna en í Bretlandi en þar segjast 68% þeirra sem þátt tóku í svipaðri könnun eiga snjallsíma. Í Bandaríkjunum er hlutfallið 52%, 64% í Rússlandi og 60% í Brasilíu.

Flestir snjallsímaeigendur sem þátt tóku í könnun MMR nota símtæki frá Samsung eða 36,7%. Hlutdeild Samsung hefur aukist mikið síðastliðin þrjú ár en árið 2010 nam hún aðeins 3,8%. Apple er í öðru sæti með 32,3% hlutdeild á snjallsímamarkaðnum. Ef skoðaðar eru allar gerðir farsíma nota flestir síma frá Nokia eða 32,6%. Ef aðeins eru skoðaðir snjallsímar þá nam hlutdeild Nokia 10,1%. Hún hefur lækkað stöðugt frá í nóvember árið 2010 þegar hún mældist 50,8%.

Könnun MMR var framkvæmd dagana 30. ágúst til 3. september 2013 og var heildarfjöldi svarenda 922 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára.