Asíumarkaðir hækkuðu flestir í nótt og leiddu tækni- og fasteignafyrirtæki hækkanirnar þar, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

"Þær jákvæðu fréttir bárust á norðurlöndunum í morgun að sænska byggingarfélagið Skanska hefur tryggt sér 680 milljónir sænskra króna samning um stækkun á bresku betrunarheimili," segir greiningardeildin.

OMX30 vísitalan hækkaði um 0,39% í dag.

Bandaríkin

"Í Bandaríkjunum opnuðu markaðir upp en lækkuðu hins vegar aftur þegar líða tók á daginn. Klukkan rúmlega fjögur að íslenskum tíma námu lækkanirnar um 1% en þar hafði lélegt uppgjör Merrill Lynch væntanlega einhver áhrif.

Einnig voru birtar tölur um nýbyggingar í Bandaríkjunum í desember og hafa tölurnar ekki verið lægri síðan 1991. Þá viðurkenndi Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, að hagkerfið væri það veikt að það réttlætti örvandi efnahagsaðgerðir en nefndi einnig að ef framkvæmdir kæmu á röngum tíma gætu þær haft þveröfug áhrif," segir greinignardeildin.