*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 26. september 2017 09:39

Flestir fljúga til New York

Stærsti flugvöllurinn sem tekur við farþegum til Bandaríkjanna frá Íslandi er Logan völlurinn í Boston.

Ritstjórn

Á síðasta ári nýttu 805 þúsund farþegar þau 962 þúsund sæti sem í boði voru frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna, sem gefur um 83% sætanýtingu. Var nýtingin nokkuð jöfn eftir flugfélögum og flugleiðum, en hæsta nýtingin var í ferðum til JFK flugvallar í New York að því er Túristi greinir frá.

Auk JFK flugvallar, er einnig Newark flugvöllur í borginni og fljúga langflestir farþegar héðan til New York, eða rúmlega 192 þúsund manns. Sú flughöfn sem fær hins vegar flesta farþega er Logan flugvöllur í Boston. Þangað flugu 164 þúsund farþegar í fyrra, en næst á eftir þessum tveimur borgum kom svo Washington með tæplega 132 þúsund farþegar.

Ef tölurnar eru bornar saman eftir fjölda farþega eftir flugfélögum og flugvöllum sést að Icelandair er með flesta farþegana til Boston, JFK í New York, Seattle og Washington flugvöll, eða frá 66 þúusnd til tæplega 103 þúsund farþega. Wow Air er svo stærst til Baltimore með tæplega 62 þúsund farþega, en næst stærsti áfangastaður flugfélagsins er Boston flugvöllur með 46 þúsund farþega.

Næst á eftir íslensku félögunum tveimur er svo Delta sem flytur tæplega 40 þúsund farþega til JFK flugvallar, en félagið er einnig það næst stærsta frá Íslandi til Minneapolis, eða með um 17 þúsund farþega, meðan Icelandair flaug með 35 þúsund farþega þangað á síðasta ári.