Árið 2009 fluttu 4.835 fleiri frá landinu en til þess. Aldrei áður hafa jafn margir flutt frá landinu á einu ári samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands.  Næstflestir brottfluttir umfram aðflutta voru árið 1887 en þá fluttu 2.229 fleiri frá landinu en til þess. Árið 1887 var mannfækkun vegna búferlaflutninga þó helmingi meiri ef miðað er við miðársmannfjölda, eða 3,1% á móti 1,5%.

90% fluttu til Evrópu

Samkvæmt frétt frá Hagstofunni fluttu flestir frá landinu til Evrópu eða 9.546. Það er tæplega 9 af hverjum 10 brottfluttum. Flestir fóru til Norðurlandanna eða 4.033 sem er 38,0% allra brottfluttra. Þar af fóru 1.576 til Noregs, 1.560 til Danmerkur og 733 til Svíþjóðar. Af einstökum löndum fóru flestir til Póllands eða 2.818 (26,6%). Mjög dró úr aðflutningi til landsins frá árinu áður. Ef frá eru talin árin 2005–2008 hafa þó aldrei flust fleiri til Íslands frá útlöndum en árið 2009, eða 5.777. Flestir fluttu til landsins frá Evrópu eða 4.938 en það er 85,5% af heildarfjölda aðfluttra til landsins. Frá Norðurlöndum kom 1.931, þar af 1.193 frá Danmörku en 418 komu frá Ameríku. Af einstökum löndum komu flestir frá Póllandi, 1.235.