Fjárhagsleg staða sveitarfélaga hefur almennt batnað frá í fyrra. Staðan er þó áfram viðkvæm enda nokkuð þungar afborganir af skuldum sveitarfélaganna falla á gjalddaga á þessu ári. Hafnarfjörður sker sig úr hópi þeirra sveitarfélaga sem verst eru stödd en afkoma bæjarfélagsins var töluvert verri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, að mati greiningardeildar Arion banka. Deildin fjallar um skuldastöðu sveitarfélaganna í Markaðspunktum sínum í dag og bendir m.a. á að umtalsverð breyting til batnaðar hafi verið á afkomu Álftaness frá í fyrra. Í Markaðspunktunum er m.a. rifjað er upp að sveitarfélagið lauk í fyrra fjárhagslegri endurskipulagninu þegar íbúar Álftaness og Garðabæjar samþykktu í íbúakosningu 20. október sl. að sameinast undir nafni Garðabæjar og tók sameiningin gildi 1. janúar sl. Álftanes er því framvegis hluti af Garðabæ og heyrir sögunni til sem sjálfstætt sveitarfélag.

Morgunkorninu segir m.a. að framlegð sveitarfélaganna hafi verið að aukast á undanförnum árum. Hún jókst að meðaltali um 2 prósentustig í fyrra. Alls jukust tekjur sveitarfélaganna að meðaltali um 8,8% að nafnvirði frá árinu 2011 og 21 af 28 sveitarfélögum skiluðu jákvæðri rekstrarniðurstöðu á síðasta ári. Það er umtalsvert betri niðurstaða en árið 2011 þegar 12 sveitarfélög af þeim 28 sem til skoðunar voru skiluðu jákvæðri rekstrarniðurstöðu.