Aldrei hafa fleiri Íslendingar flogið með WOW air en núna í sumar. Í júní, júlí, ágúst og september 2017, þá flugu 176.500 Íslendingar með WOW air sem er 17% aukning frá fyrra ári.

Á sama tíma fjölgaði ferðum Íslendinga erlendis almennt um 10%. Hlutdeild WOW air í fjölda Íslendinga sem flugu frá Keflavíkurflugvelli á þriðja ársfjórðungi var 38% en á sama tíma var hlutdeild Icelandair 34% og annarra flugfélaga 28%.

Þegar bornar eru saman fjárfestakynningar Icelandair, tölfræði WOW air og gögn Ferðamálastofu sýna að hlutfall Wow air í brottförum Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli hefur aukist úr 36% í 38%. Miðast þetta við þriðja ársfjórðung áranna 2016 og 2017, en á sama tíma minnkaði hlutfall Icelandair úr 37% í 34% en hlutfall annarra flugfélaga jókst einnig, eða úr 27% í 28%.

Þakka nýjum áfangastöðum og lágu flugverði

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að vaxandi hlutdeild WOW air megi þakka lágu flugverði og góðu gengi nýrra áfangastaða WOW air líkt og Los Angeles, San Francisco, Chicago, New York og Tel Aviv. Og aukinni tíðni á staði í Evrópu eins og Amsterdam, París og London.

Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air segir félagið vera þakklátt og stolt yfir frábærum móttökum sem við höfum fengið frá löndum okkar. Þetta hefur tekist betur en nokkur hefði þorað að vona,“ segir Skúli.

„Það var markmið okkar frá fyrsta degi að bjóða okkar farþegum upp á glænýjar flugvélar og lægra verð en áður hefur sést og gera þar með öllum kleift að ferðast.“

Íslendingar fara í auknum mæli til Kanada

Þá er vert að benda á að mikil aukning hefur orðið á ferðum Íslendinga til Kanada á því tæplega einu og hálfu ári sem liðið er frá því að WOW air hóf áætlunarflug þangað. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Kanada (Statistics Canada) þá komu tólf þúsund íslenskir ferðmenn til Kanada á tímablinu frá september 2016 til ágúst 2017.

Á þeim tólf mánuðum sem liðu áður en WOW air hóf flug til Kanada í maí 2016 þá komu sjö þúsund íslenskir ferðmenn. Þetta er aukning upp á 70% en WOW air flýgur daglega til Toronto og fjórum sinnum í viku til Montréal allan ársins hring.

Nýlega bættust fimm nýir áfangastaðir í Norður Ameríku við leiðarkerfi WOW air; Cincinnati, Cleveland, Dallas, St. Louis og Detroit en þess má geta að ferðaritið Lonely Planet valdi Detroit sem aðra áhugaverðustu borgina til að heimsækja árið 2018. Þar segir að Detroit sé á mikilli uppleið þar sem búið er að gefa yfirgefnum byggingum nýtt útlit og hlutverk til dæmis í formi hótela og listasafna.