Könnun á lestri viðskiptablaða meðal stjórnenda stórfyrirtækja, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Viðskiptablaðið í nóvember og desember á síðasta ári, leiðir í ljós að tæp 60% svarenda lesa Viðskiptablaðið reglulega og rúmur helmingur les Viðskiptablað Morgunblaðsins reglulega. Um 40% svarenda les Markað Fréttablaðsins reglulega en tæp 30% nefnir önnur blöð. Sé einungis horft til þeirra sem lesa viðskiptablöð reglulega eru 70% sem lesa Viðskiptablaðið, 64% Viðskiptablað Morgunblaðsins og 49% Markaðinn.

Í úrtaki Félagsvísindastofnunar voru 300 stærstu fyrirtæki landsins eftir veltu og auk þess stórar opinberar stofnanir og lífeyrissjóðir. Svarendur voru stjórnendur og millistjórnendur og fengust 512 svör frá stjórnendum 250 fyrirtækja. Langflestir svarenda, 83%, kváðust lesa viðskiptablöð reglulega.

Þeir sem lesa viðskiptablöð reglulega voru spurðir hvert þessara þriggja meginblaða þeim líkaði best. Tæplega helmingur svarenda nefndu Viðskiptablaðið (47%), 40% nefndu Viðskiptablað Morgunblaðsins og virðast þau hafa yfirburðastöðu gagnvart Markaði Fréttablaðsins að þessu leyti, en einungis 13% nefndu hann. Viðskiptablaðið hefur yfirburði að þessu leyti þegar svör eru greind eftir heimilistekjum fyrir skatta. Hlutfall þeirra sem líkaði best við Viðskiptablaðið í tveimur efstu tekjuhópunum var 59% í tekjuhópnum 600-799.000 krónur, en 33% og 9% líkaði best við Viðskiptablað Morgunblaðsins og Markaðinn, og í tekjuhópnum 800.000 eða hærra líkaði 54% best við Viðskiptablaðið, 34% við Viðskiptablað Morgunblaðsins og 12% við Markaðinn.



9% treystir ekki Markaði Fréttablaðsins

Ennfremur var spurt um traust á fréttaflutningi þessara þriggja blaða og svarendur beðnir um að gefa blöðunum einkunn frá einum og upp í fimm. Svarendur báru svipað traust til Viðskiptablaðsins og Viðskiptablaðs Morgunblaðsins og sögðust einungis 1-2% vantreysta þessum blöðum. Útkoma Markaðarins var talsvert lakari því 9% kváðust ekki treysta fréttaflutningi hans. Ef reiknuð er meðaleinkunn á trausti blaðanna er óverulegur munur á Viðskiptablaðinu og Viðskiptablaði Morgunblaðsins. Það síðarnefnda er með meðaleinkunnina 4,1 en Viðskiptablaðið með 4,0 í meðaleinkunn. Meðaleinkunn Markaðarins er 3,6.

Viðskiptablaðið kemur út tvisvar í viku, á miðvikudögum og föstudögum. Miðvikudagsblaðið hefur örlítinn vinning yfir föstudagsblaðið á meðal þeirra sem lesa viðskiptablöð reglulega. 80% þeirra kváðust lesa miðvikudagsblaðið reglulega og 77% föstudagsblaðið.

Allir svarendur voru spurðir að því hvort fyrirtæki þeirra væri áskrifandi að Viðskiptablaðinu. Mikill meirihluti, 82%, sagði svo vera.

Lestur Viðskiptablaðsins og Viðskiptablaðs Morgunblaðsins er nokkuð stöðugur óháð fjölda starfsmanna fyrirtækis. Lestur Viðskiptablaðsins er rúmlega 50% hjá öllum og lestur Viðskiptablaðs Morgunblaðsins nokkuð minni. Lestur Markaðarins er mun sveiflukenndari en blaðið er mest lesið hjá starfsmönnum þeirra fyrirtækja sem fæsta hafa starfsmenn en talsvert minni hjá starfsmönnum stærri fyrirtækja.

Þegar reglulegur lestur viðskiptablaða er skoðaður eftir veltu fyrirtækja kemur í ljós að lesturinn eykst með aukinni veltu. Minnstar sveiflur eru þó í lestri Viðskiptablaðsins eftir veltu. Svipað er uppi á teningnum þegar reglulegur lestur á viðskiptablöðum og heimilistekjur eru skoðaðar. Lestur allra blaðanna eykst eftir því sem tekjur aukast. Viðskiptablaðið er mest lesið meðal þeirra sem eru með yfir 600.000 krónur í heimilistekjur á mánuði.

Þegar lesturinn er greindur eftir stöðu svarenda innan fyrirtækja kemur í ljós að æðstu stjórnendur og framkvæmdastjórar sviða lesa mest af viðskiptablöðum. Viðskiptablaðið er mest lesið hjá öllum hópum nema starfsmannastjórum. Markaður Fréttablaðsins er minnst lesinn í öllum tilvikum. Þegar skoðað var hvaða blað svarendum líkar best eftir veltu fyrirtækis kemur í ljós að Viðskiptablaðið hefur nokkra yfirburði hjá starfsmönnum óháð veltu. Markaður Fréttablaðsins rekur lestina. Flestum líkar best við Viðskiptablaðið af svarendum þegar skoðað er út frá starfsmannafjölda fyrirtækis.

Þegar spurt var hvort svarendur hafi flett eða lesið helstu viðskiptablöðin síðustu sjö daga má sjá að flestir hafa lesið eða flett Viðskiptablaði Morgunblaðsins, þá Viðskiptablaðinu og Markaðurinn rekur lestina. Hlutfall svarendahópa sem hafa lesið eða flett helstu viðskiptablöðunum síðustu fjórar vikur er á milli 80 og 100%.