*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 16. september 2019 12:17

Flestir mæla með Fjarðarkaupum

40% Íslendinga nota vörur mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík skv. nýjustu meðmælavísitölu MMR.

Ritstjórn
Hálfdán Óskarsson er einn stofnenda Örnu sem er það framleiðslufyrirtæki sem flestir mæla með.
Haraldur Guðjónsson

Annað árið í röð trónir hafnfirska verslunin Fjarðarkaup á toppi lista MMR yfir þau fyrirtæki sem Íslendingar mæla helst með. Þetta kemur fram í tilkynningu MMR um nýjustu mælingar fyrirtækisins á meðmælavísitölu 135 þjónustu- og framleiðslufyrirtækja. Fjarðarkaup hefur verið meðal 10 efstu fyrirtækja í meðmælavísitölunni frá því að mælingar hófust árið 2014. 

Í tilkynningunni segir að það veki athygli að Arna rjúki upp lista ársins og hafni í fimmta sæti á listanum. „Það sem meira er og vekur sérstaka athygli, er að 40% Íslendinga segjast nú nota vörur frá Örnu að staðaldri,“ segir enn fremur í tilkynningu MMR, en þetta er hærra hlutfall viðskiptavina en hjá nokkru öðru fyrirtæki á lista þeirra fimm efstu.

Efst á lista hástökkvara þessa árs var 1819 upplýsingasíminn sem hækkaði um tæp 30 stig í vísitölunni. Þá styrkir Securitas stöðu sína umtalsvert og Askja sækir hart að Toyota sem er efst á lista bifreiðaumboða.

Costco er efst á lista yfir fyrirtæki í olíusölu. Storytel er vinsælasta áskriftarþjónustan. Arna er á toppi lista framleiðslufyrirtækja. Hamborgarabúlla Tómasar er vinsælasti veitingastaðurinn. Af líkamsræktarstöðvum mæla flestir með Reebok Fitnes. SAMbíóin Egilshöll er efsta lista fyrirtækja í afþreyingu. Þá mæla flestir með versluninni IKEA í flokki fyrirtæki í annarri verslun.

„Fleiri smærri fyrirtæki skáka risunum í atvinnugreinum sínum og má þar nefna nýliða Hreyfingar og Reebok Fitness sem koma með látum inn á lista efstu fyrirtækja meðmælavísitölunnar. Það er greinilegt að líkamsrækt á stóran sess í hjörtum landsmanna en Hreyfing fylgir fast á hæla Fjarðarkaups í öðru sætinu og Reebok Fitness vermir það níunda.

Einnig er áhugavert að sjá breytileika í vinsældum eldsneytis- og smásöluþjónustu Costco en alþjóðlegi verslunarrisinn var þetta árið bæði mældur í atvinnugreinum matvöruverslana og olíufélaga eftir að hafa einungis verið fyrir í flokki matvöruverslana síðustu tvö ár. Nokkurn mun er að finna á velgengni fyrirtækisins í þessum tveimur flokkum en eldsneytisþjónusta Costco kemur sér fyrir í þriðja sæti meðmælavísitölunnar í ár, allnokkru ofar en smávöruverslun Costco sem fellur af lista tíu efstu fyrirtækja.

Meðmælavísitalan byggir á Net Promoter Score aðferðafræðinni en meðmælavísitalan byggir, líkt og nafnið bendir til, á mælingum á því hversu líklegir einstaklingar eru til að mæla með (eða hallmæla) fyrirtækjum sem þau hafa átt viðskipti við. Niðurstöður mælinganna gefa því góða tilfinningu fyrir stöðu fyrirtækja á íslenskum markaði enda hafa rannsóknir sýnt að meðmæli eru stór áhrifaþáttur í ákvörðunartöku neytenda um hvort stofna eigi til viðskiptasambands við fyrirtæki,“ segir í tilkynningu MMR. 

Stikkorð: MMR Fjarðarkaup Arna meðmælavísitalan