Áhyggjur fjárfesta af því hvort Ítalía feti í fótspor Grikklands ofan í skuldafenið leiddu til þess í dag að helstu hlutabréfavísitölur lækkuðui um nær heim allan.

Fram hefur komið að fjárfestar virðast hafa snúið baki við Ítölum með þeim afleiðingum að fjármögnunarkostnaður ítalska ríkisins hefur rokið upp úr öllu valdi. Það getur komið í veg fyrir að ríkissjóður geti endurfjármagnað geysiháar skuldir sínar.

Í grein Associated Press- fréttastofunnar í dag kemur fram að skuldir Grikkja, Portúgala og Íra hafi verið viðráðanlegar og því hafi alþjóðaasmfélagið getað snúið bökum saman um neyðaraðstoð. Talsvert hærri skuldir sliga hins vegar Ítala og gæti björgun landsins því orðið mun torveldari og kostnaðarsamari

Í morgun að evrópskum tíma fór kostnaðurinn í hæstu hæðir. Hann lækkaði eftir því sem leið á daginn á fjármálamörkuðum. Lækkunin skýrist ekki síst af þeim orðrómi sem fór á kreik að Silvio Berlusconi forsætisráðherra hafi í hyggju að segja af sér og standa þar með ekki í vegi fyrir nauðsynlegri hagræðingu í ríkisrekstrinum. Þetta hafði jákvæð áhrif á markaðinn þótt hlutabréfavísitölur á meginlandi Evrópu hafi byrjað vikuna í mínus.

Berluscon dró fregnir þess efnis svo til baka nú undir kvöld.

FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkaði um 0,41% í dag, DAX-vísitalan í Þýskalandi fór niður um 0,63% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi fór niður um 0,64%. Það sem af er dags hefur Dow Jones-vísitalan lækkað um 0,48%, S%P 500-vísitalan lækkað um 0,615 OG Nasdaq-vísitalan farið niður um 0,95%