Flestir hlutabréfamarkaðir hækkuðu í dag, þriðja daginn í röð en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst smásölukeðjur og lyfjaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði um 0,5% en hafði þó fyrr í dag lækkað um 0,3%. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 16% það sem af er þessu ári.

Verslunarkeðjan Carrefou hækkaði um 5,7% eftir að fyrirtækið tilkynnti að hafist yrði handa við miklar sparnaðaraðgerðir auk þess sem til stendur að lækka útsöluverð keðjunnar.

Að öðru leyti var dagurinn frekar rólegur að sögn Reuters, þá sérstaklega á meginlandinu.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,5%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan einnig um 0,5% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,1%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,7% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,3%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,25% en í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,7%.