Á yfirstandandi skólaári stunda ríflega þúsund einstaklingar nám við skóla Keilis. Flestir eru nemendur við Háskólabrúnna eða 332 talsins. Lokapróf úr frumgreinanáminu telst sambærilegt stúdentsprófi og nægir til inntöku í allar deildir Háskóla Íslands og gildir það sama um fjölmarga skóla bæði hérlendis og erlendis.

Fjölmennasta námslínan við Keili er þó atvinnuflugnám en skráðir nemendur eru 237 talsins, næst fjölmennust er félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrúarinnar sem telur 158 nemendur. Umsvif Flugakademíu Íslands hafa aukist þó nokkuð undanfarin misseri en nemendur hafa kost á að stunda bóklegt nám við starfsstöðvar í Hafnarfirði og í Reykjanesbæ og verklegt nám fer fram við tvenna alþjóðaflugvelli, Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll.

Kynjaskipting við Keili er því sem næst jöfn og er meðalaldur nemenda um þrítugt. Yngstir eru nemendur Menntaskólans á Ásbrú en meðalaldur við skólann er 23 ára. Á Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð er meðalaldurinn 16 ára en meðalaldur nemenda sem skráðir eru í opna framhaldsskólaáfanga er 30 ára sem hækkar meðaltalið all nokkuð.

FLestir erlendir nemar í einkaþjálfaranámi

Hæst hlutfall nemenda býr á höfuðborgarsvæðinu eða 60% en um það bil fjórðungur er búsettur á Reykjanesi. Nemendur koma þó víðar af en svo eða frá 22 mismunandi löndum. Um 6% nemendahópsins koma erlendis frá, flestir frá Danmörku, eða 17, en 6 koma frá Póllandi og 4 frá Svíþjóð.

Hæsta hlutfall erlendra nemenda er við Íþróttaakademíuna en kemur það til vegna Nordic Personal Trainer Certificate námsins sem er einkaþjálfaranám á ensku er vottað af Europe Active og fer fram í fullu fjarnámi svo nemendur geta lagt stund á námið hvar sem þeir eru í heiminum.